Karamellukröns sörur
Girnilegar karamellukröns sörur frá Lindu Ben úr kökubæklingnum 2025
Uppskrift
Leiðbeiningar
1. Byrjið á því að útbúa kremið.
2. Þeytið eggjarauður í hrærivél þar til blandan er orðin létt og ljós. Hitið vatn og sykur í potti í um 3 mínútur eða þar til sykurinn hefur náð að leysast upp í vatninu. Hellið sykurvatninu saman við eggjarauðurnar í mjórri bunu og hrærið rólega á meðan. Þeytið þar til blandan er loftmikil og nánast hvít að lit.
3. Bræðið rjómasúkkulaðið. Hellið því næst súkkulaðibráðinni saman við eggjablönduna í mjórri bunu og hrærið rólega á meðan. Skerið mjúka smjörið í litla bita, setjið einn bita út í í einu og þeytið það saman við.
4. Geymið kremið í ísskáp í um klukkutíma eða á meðan verið er að útbúa botnana.
5. Kveikið á ofninum og stillið á 175°C með undir- og yfirhita.
6. Setjið eggjahvítur í skál ásamt salti og cream of tartar, þeytið þar til blandan freyðir og bætið þá sykrinum út í.
7. Þeytið þar til stífir toppar myndast.
8. Blandið saman flórsykri og möndlumjöli. Bætið út í eggjahvítublönduna og veltið varlega saman við með sleikju þar til hráefnið er samlagað.
9. Hellið deiginu ofan í sprautupoka með hringlaga stút.
10. Sprautið á smjörpappírsklæddar ofnplötur þannig að hver kaka sé u.þ.b. 4 cm í þvermál. Passið að hafa u.þ.b. 2-3 cm bil á milli þeirra svo að þær klessist ekki saman í ofninum. Bakið í u.þ.b. 12 mínútur. Leyfið kökunum að kólna.
11. Smyrjið kremi á hverja köku svo það sé kúpt í miðjunni en þynnist út að köntunum. Kælið kökurnar í stutta stund.
12. Bræðið loks suðusúkkulaði yfir vatnsbaði og hjúpið hverja köku með því að dýfa kreminu ofan í súkkulaðið. Leggið kökurnar á grind á meðan súkkulaðið storknar.
Innihaldsefni
Krem
3 eggjarauður
100 g vatn
100 g sykur
300 g Síríus rjómasúkkulaði
100 g mjúkt smjör
Botnar
3 eggjahvítur
1/3 tsk. salt
1/4 tsk. cream of tartar
50 g sykur
200 g flórsykur
200 g möndlumjöl
Hjúpur
400 g Síríus suðusúkkulaði með karamellukurli og sjávarsalti